*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. nóvember 2013 11:34

Ætla að selja stóran hlut í FSÍ

Landsbankinn á tæp 30% í Framtakssjóði Íslands. Hann hyggst selja fjórðung af því.

Ritstjórn
Brynjólfur Bjarnason er framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins.
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn hefur hug á að selja fjórðungshlut í Framtakssjóði Íslands eða þar um bil. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn VB.is. 

Eigendur Framtakssjóðsins eru annars vegar lífeyrissjóðir og hins vegar á Landsbankinn tæplega 28% hlut. „Við höfum því látið aðra eigendur vita að við viljum selja einhvern hluta af okkar hlutafé, það má vera um fjórðungur af okkar eign eða þar um bil, veltur á framgangi samninga. Þetta er í farvegi og við bíðum viðbragða sem stendur,“ segir í svari Landsbankans. 

Landsbankinn er stærsti eigandinn, þar á eftir kemur Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 19,91%, Gildi lífeyrissjóður með 10,39%, Sameinaði lífeyrissjóðurinn með 7,72% og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins með 7,36%.