Geogreenhouse ætlar að byggja um 50 þúsund fermetra gróðurhús sem er um fjórðungur af heildarflatarmáli gróðurhúsa hér á landi. Ráðgert er að framleiða þrjú til fjögur þúsund tonn árlega sem skila um 9 til 10 milljónum evra árlega.

Orkuveita Reykjavíkur og Geogreenhouse komust að samkomulagi nýlega sem felur í sér að byggð verði upp stórt ylræktarver sem framleiðir tómata og flytur til Bretlands. Er gert ráð fyrir að framleiðslan skapi um 50 störf. Þetta kom fram í viðtali við Sigurð Kiernan og Svein Aðalsteinsson frá Geogreenhouse í síðdegisútvarpi Rásar 2.

Sölufélag Garðyrkjumanna og Nýsköpunarsjóður eru meðal fjárfesta í Geogreenhouse.