Ingveldur Einarsdóttir, dómari við Landsrétt, hefur verið skipuð dómari við Hæstarétt. Hún var ein þriggja sem dómnefnd um hæfni umsækjenda mat hæfust til að gegna embættinu. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Auk Ingveldar voru landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Sigurður Tómas Magnússon metnir hæfastir. Með skipan Ingveldar verða tvær konur dómarar við Hæstarétt en fimm karlar. Hin konan, Greta Baldursdóttir, getur sest í helgan stein kjósi hún það en hún hefur náð 65 ára aldri.

Björg Thorarensen, prófessor við Háskóla Íslands, og Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri Héraðsdóms Suðurlands, hafa verið sett sem dómarar við Landsrétt frá áramótum til 30. júní 2020. Þá hefur dómsmálaráðuneytið hefur auglýst laus tvö embætti dómara við Landsrétt til setningar. Stefnt er að því að setja í embættin hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda hefur skilað af sér. Setningartíminn er til 30. júní 2020. Auglýsingin er birt í Lögbirtingablaðinu í dag.

Talsvert basl hefur verið á Landsrétti eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, um lögmæti skipan fjögurra dómara við réttinn, var kveðinn upp. Frá því að hann lá fyrir hafa fjórir dómarar af fimmtán ekki sinnt dómstörfum. Þessu til viðbótar hefur Ingveldur Einarsdóttir verið í námsleyfi en því lýkur 1. mars 2020. Hún hefur nú hlotið skipun sem hæstaréttardómari.

Í haust var héraðsdómarinn Arngrímur Ísberg settur dómari við réttinn og hið sama gildir um fyrrverandi héraðsdómarana Eggert Óskarsson og Sigríði Ingvarsdóttur. Hafa því þrettán dómarar sinnt störfum undanfarið. Dómararnir eiga hins vegar að vera fimmtán talsins og vantar tvo upp á.

Umsóknarfrestur um stöðurnar tvær er til 6. janúar 2020.