Íslenska fyrirtækið Florealis framleiðir jurtalyf, sem eru skráð hjá Lyfjastofnun. Fyrirtækið sérhæfir sig í lækningavörum og jurtalyfjum, sem framleidd eru úr virkum náttúruefnum.

Fyrstu vörurnar komur á markað hérlendis fyrir einum og hálfum mánuði. Florealis hefur jafnframt gert samning við sænsku keðjuna Apoteket, sem rekur 370 lyfjaverslanir í Svíþjóð.

Að sögn Kolbrúnar Hrafnkelsdóttur, forstjóra Florealis, er þróunarvinnunni stjórnað frá Íslandi en vörurnar eru framleiddar í Þýskalandi, Sviss og á Norður-Ítalíu. Hún segir þetta vera mjög algengt í lyfjaiðnaðinum, þ.e. að gerðir séu samningar við lyfjaframleiðendur.

„Í dag erum við með fjörutíu vörur á lista hjá okkur sem við stefnum á að setja á markað," segir Kolbrún. „Ef þú skoðar íslensku sérlyfjaskrána þá er bara eitt jurtalyf skráð og það er lyf frá okkur. Við höfum því verið, og erum, í miklu frumkvöðstarfi hér heima. Grundvöllurinn fyrir þessu var lagður árið 2011 þegar evrópskt regluverk um jurtalyf tók gildi. Þó þessi lyf séu ekki mjög þekkt á Íslandi eða Norðurlöndum er töluvert mikil hefð fyrir þeim í Mið- og Austur-Evrópu, til dæmis í Þýskalandi."

Stefna að því að skila hagnaði 2019

Florealis hefur ekki verið með neinar rekstrartekjur undanfarin ár enda öll áhersla verið lögð á þróunarvinnuna. Árið 2016 var ríflega 43 milljóna króna tap á rekstrinum og árið 2015 nam tapið tæplega 38 milljónum.

„Við stefnum að því að fyrirtækið skili hagnaði árið 2019. Í svona frumkvöðlastarfi skiptir gríðarlega miklu máli að vera með góða og þolinmóða fjárfesta. Við erum með einkafjárfesta sem stofnuðu félagið Einvala um þessa fjárfestingu. Þessir fjárfestar hafa fjármagnað félagið frá upphafi. Þetta er hópur fólks úr lyfjaiðnaðinum á Íslandi og viðskiptalífinu. Við eigum núna í samningaviðræðum við nýja fjárfesta, sem munu bætast í hópinn. Vegna trúnaðar get ég því miður ekki sagt meira um það á þessu stigi."

Lítið fyrirtæki með öfluga stjórn

Florealis er enn sem komið er lítið fyrirtæki. Starfsmennirnir eru fimm. Auk Kolbrúnar eru það Karl Guðmundsson markaðsstjóri en hann starfaði áður hjá Össuri, Biomet og Ekso Bionics. Elsa Steinunn Halldórsdóttir, sem er doktor í lyfja- og efnafræði náttúrulegra efna og þróunarstjóri Florealis. Ásta Rut Jónasdóttir gæðastjóri, sem er með meistaragráðu í stjórnun. Bæði Elsa Steinunn og Ásta störfuðu um árabil hjá Actavis. Síðan er Florealis með skrifstofu í Svíþjóð en þar starfar Louise Sävström við markaðsmál.

Florealis er með öflugar stjórn á bakvið sig en hana skipa stjórnarformaðurinn Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fyrrverandi forstjóri Actavis Group, Hjörleifur Pálsson, sem var fjármálastjóri Össurar í 12 ár og Skúli Valberg Ólafsson, stofnandi sænska fjárfestingafélagsins Arcticus.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .