Unnið er að því að skipta ræðupúltinu á Alþingi út fyrir annað sem bæta á aðgengi fatla í ræðustól, að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins, miður að ekki sé búið að gera bragabót á aðgengi fatlaðra að ræðupúltinu á þeim sex mánuðum sem liðnir eru síðan óskað var eftir því. Hann sagði flokkssystur sína Freyju Haraldsdóttur af þeim sökum verða að flytja mál sitt úr sæti sínu.

„Ef hér væri ræðupúlt sem allir gætu notað þá stæðu allir jafnfætis í þeim efnum,“ sagði Róbert og mælti með því að verði púltið ekki lagað megi breyta fyrirkomulagi á þingfundum, s.s. á þann veg að umræður fari fram úr sætum þingmanna eins og tíðkist í öðrum þingum.

Einar sagði á móti það vera einlægan ásetning forsætisnefndar að bæta aðgengið að ræðupúltinu og horfi hann til þess að málið verði lagað með nýju ræðupúlti. Unnið er að breytingunni í samvinnu við Öryrkjabandalagið. Þá sagði hann málið hafa dregist þar sem fyrstu hugmyndir hafi að mati forsætisnefndar ekki verið viðunandi.