Eignarbjarg, dótturfélag Arion banka, undirbýr nú skráningu smásölurisans Haga í Kauphöll. Samkvæmt frétt á heimasíðu félagsins er „fyrirhugað að óska eftir henni síðar á árinu“. Í aðdraganda þeirrar skráningar mun Arion banki bjóða fagfjárfestum og almennum fjárfestum að kaupa hlutabréf í Högum. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka mun hafa yfirumsjón með því ferli. Viðskiptablaðið greindi frá því í lok maí að Búvellir slhf. hefðu greitt fyrir og fengið afhentan 35,3% hlut í Högum sem félagið samþykkti að kaupa í febrúar. Samkeppniseftirlitið hafði þá lagt blessun sína yfir kaupin og í kjölfarið fór greiðsla á 4.140 milljóna króna kaupverðinu fram. Hagamelur, félag í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, Sigurbjörns Þorkelssonar og TM, er stærsti einstaki eigandi Búvalla.