Stjórnendur Regins eru enn með áform um að stækka félagið þrátt fyrir að tilboð í Eik hafi ekki verið samþykkt. „Við munum stækka félagið eins og stjórn ætlar sér og munum vinna að því áfram. Það eru næg tækifæri til staðar,“ segir Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins.

Hann bendir á að atvinnuhúsamarkaðurinn sé gríðarlega stór. Og hvert félag sem starfi á honum sé bara nokkur prósent hvert um sig. „Við höfum stækkað um 24% á síðustu átta til níu mánuðum og bara með því að kaupa minni félög sem ekkert bar á áður. Þannig að það eru allskonar tækfiæri til staðar,“ segir hann.

Reginn tilkynnti á föstudaginn að tilboðið í Eik hefði ekki verið samþykkt. Í sömu tilkynningu sagði að Reginn hefði eftir sem áður áhuga á Reginn hafi eftir sem áður áhuga á viðræðum við hluthafa Eikar fasteignafélags um kaup á félaginu eða samruna við Reginn hf. Í morgun var svo tilkynnt að samrunaviðræður væru hafnar milli Arion banka, fyrir hönd fasteignafélagsins Landfesta, og Eikar.

„Eigum við ekki að leyfa mönnum að klára það,“ segir Helgi aðspurður út í viðbrögð hans við viðræðum Arion og Eikar. Reginn sé að vinna í fullt af málum og félaginu hafi gengið mjög vel á því ári sem liðið er frá því að félagið var skráð á markað.