Dómsmál verður höfðað til ógildingar á úrskurði Skipulagsstofnunar sem var á þá leið að ekki þyrfti að koma til umhverfismat vegna fyrirhugaðrar verksmiðju Silicor Materials á Grundartanga í Hvalfirði. Stefnendur í málinu eru meðal annars Kjósarhreppur, náttúruverndarsamtök, bændur og íbúar á svæðinu. Vísir greinir frá þessu.

„Við teljum að hagsmunir séu það stórir og náttúran hljóti að eiga að fá að njóta vafans,“ segir Guðmundur Davíðsson, oddviti í Kjósarhreppi, í samtali við Vísi. Í dómsmálinu verður gerð sú krafa að úrskurður Skipulagsstofnunar verði ógildur á þeirri forsendu að hann sé efnislega rangur auk þess sem á honum séu verulegir formgallar.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur sem fer með hagsmuni stefnenda í málinu, segir áherslu lagða á að klára málið á sem skemmstum tíma. Hins vegar vilji enginn taka við stefnunni hér á landi fyrir hönd Silicor Materials.