„Lítið hagkerfi eins og okkar, sem er viðkvæmt fyrir utanaðkomandi sveiflum þarf að setja sér metnaðarfull markmið um litla skuldsetningu og leggja áherslu á langtímasýn í opinberum fjármálum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundi í Seðlabanka Íslands í morgun.

Hann sagði að stefnt væru að þessu í nýju frumvarpi um opinber fjármál sem ríkisstjórnin afgreiddi á fundi sínum í morgun. Þar væru lengri áætlanir og fastmótaðri stefnumörkun lögð til grundvallar, auk strangra fjármálareglna. „Meðal markmiðanna er að afkoma ríkisins verði ætíð jákvæð innan hvers fimm ára tímabils og árlegur halli fari ekki yfir 2,5%. Innleitt verður 45% skuldaþak og fela reglurnar í sér leiðbeiningar um það hvernig settu skuldamarkmiði verður náð. Við samþykkt frumvarpsins verður innleiddur mun meiri agi við stjórn ríkisfjármála,“ sagði Bjarni Benediktsson í ræðunni.

Hefur kynnt frumvarp um fjármálastöðugleikaráð
Þá sagði Bjarni að fyrir Alþingi lægi einnig frumvarp til laga um fjármálastöðugleikaráð, sem leysa á af hólmi nefnd um fjármálastöðugleika, sem er nú vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og tillögugerðar vegna fjármálastöðugleika og samhæfingar viðbúnaðar við hugsanlegu fjármálaáfalli.

„Með ákvæðum frumvarpsins er brugðist við einni þeirra meginveilna sem í ljós komu í kjölfar fjármálakreppunnar, þ.e. skorti á tengslum heildar- og eindaeftirlits á fjármálamörkuðum sem leiddi til þess að enginn einn aðili hafði heildaryfirsýn yfir stöðu fjármálakerfisins,“ sagði Bjarni í ræðunni

Í frumvarpinu er lagt til að settur verði á stofn formlegur vettvangur stjórnvalda sem hafa á yfirsýn yfir stöðu og þróun fjármálamarkaðar og þeim vettvangi skapaður formlegur lagalegur grunnur. Gerð er tillaga um stofnun annars vegar fjármálastöðugleikaráðs og hins vegar kerfisáhættunefndar sem undirbýr umfjöllun fjármálastöðugleikaráðs.

Bjarni lagði áherslu á að hvorki fjármálastöðugleikaráði né kerfisáhættunefnd væri ætlað að hrófla við sjálfstæði Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitsins, en af fenginni reynslu hérlendis sem erlendis mætti ætla að áföll á fjármálamarkaði kalli á beina eða óbeina aðkomu.