*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 7. nóvember 2019 11:05

Ætla að takast á við „báknið“

Miðflokkurinn auglýsir eftir reynslusögum þeirra sem lent hafa í „Kerfinu“, mætt óbilgirni eða óeðlilegum hindrunum.

Ritstjórn
Merki Miðflokksins, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, stofnaði fyrir síðustu kosningar.
Haraldur Guðjónsson

„Átt þú reynslusögu?“ er fyrirsögn fréttatilkynningar sem MIðflokkurinn hefur sent frá sér sem virðist hönnuð til að ná til stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Þar biðlar flokkurinn til almennings að hjálpa sér við að berjast gegn bákninu.

Síðarnefndi flokkurinn hefur langa sögu af því að tala fyrir baráttu við „báknið“, eins og slagorðið gamla Báknið burt! er til vitnis um, en nú virðist sem Miðflokkurinn hyggist ætla að höggva í sömu knérun.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins fallið úr þeim ríflega þriðjungi þjóðarinnar sem lengi studdi flokkinn niður í fjórðung þangað til nýlega þegar fylgið tók annað stökk niður á við og hefur síðan virst hjara í kringum fimmtung kjósenda.

Miðflokkurinn spyr í tilkynningunni um sögur þeirra sem lent hafa í „Kerfinu“, hafa mætt óbilgirni af hálfu hins opinbera, eða upplifað óeðlilegar hindranir stjórnkerfisins við stofnun eða rekstur fyrirtækja í daglegu lífi.

Er almenningur beðinn um að senda reynslusögurnar á netfangið reynsla@midflokkurinn.is, en sagt að getið verði nafnleyndar nema sérstök heimild verði veitt til annars. Segist flokkurinn þar með vilja hjálp til að greina eðli vandans svo hann verði betur í stakk búinn til að leysa hann.

Meðal þess sem flokkurinn segist stefna að er:

  • Einföldun regluverks
  • Aukin vernd borgaranna gagnvart yfirvaldi
  • Aukið jafnræði óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu
  • Einfaldari samskipti við opinberar stofnanir
  • Minna bákn og þar af leiðandi lægri skattar og betri lífskjör

„Markmiðið er að stuðla að betra lífi fyrir almenning, aukinni verðmætasköpun og því að ríkið geti betur nýtt peninga skattgreiðenda til að standa undir mikilvægri þjónustu,“ segir að lokum í tilkynningu flokksins.