Messenger, spjallforrit Facebook, hefur náð mikilli útbreiðslu. Rúmlega þúsund milljónir einstaklinga nota forritið í hverjum mánuði, af þeim nota um 300 milljónir forritið fyrir símtöl.

Samkvæmt Tech Crunch, ætlar fyrirtækið að nýta þessar miklu vinsældir til þess að tekjuvæða forritið. Fyrirtækið mun til að mynda opna á leiðir til þess að nota Messenger í greiðslumiðlun. Notendur munu þá geta keypt og selt, án þess að þurfa að fara út úr forritinu. Facebook mun þá geyma kortaupplýsingar og sjá til þess að öryggi sé tryggt.

Uppfærslunni verður þó ekki hrint út á næstunni. Um er að ræða prufukeyrslu, sem á að gefa fyrirtækinu betri skilning á þörfum og óskum notenda.

Facebook hefur almennt náð mikilli útbreiðslu og er eitt stærsta tæknifyrirtæki samtímans. Margir líkja því við Microsoft, enda eiga stofnendurnir þó nokkuð sameiginlegt.

Gengi bréfanna hefur hækkað um ríflega 236,12% frá því að fyrirtækið fór á markað árið 2012. Hver hlutur kostar nú rúmlega 128 dali.