Nýtt flugþjálfunarfyrirtæki, Focus Aero Solutions, hefur fengið leyfi Samgöngustofu til að annast þjálfun flugáhafna Boeing flugvéla hér á landi. Jafnframt hyggst félagið öðlast réttindi til þjálfunar á fleiri tegundum Boeing þota sem og flugvéla frá Airbus.

Focus Aero Solutions var stofnað af þeim Arnari Jökli Agnarssyni, Arnari Má Baldvinssyni og Kára Kárasyni, flugstjórum frá Icelandair, og Margréti Hrefnu Pétursdóttur, Flugöryggis- og gæðastjóra, en því starfi gegnir hún einnig hjá flugfélaginu Play.

Leyfið, sem er svokallað ATO leyfi, var veitt 6. janúar síðastliðinn, en það heimilar fyrirtækinu að annast þjálfun flugáhafna svokallaðra fjölstjórnarflugvéla á borð við Boeing 737 og fljótlega einnig 757 og 767 véla.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu hefur Samgöngustofa ekki veitt ATO leyfi frá árinu 2016, en Viðskiptablaðið fjallaði um það í október síðastliðnum stóð hópur fyrrum Icelandair þjálfunarflugmanna þá að stofnun þjálfunar og ráðgjafafyrirtækisins V-one.

Nota aðferð sem fá flugfélög nýta sér

Focus sérhæfir sig í þjálfun flugmanna með svokallaðri Gagnadrifinni flugþjálfun (Evidence Based Training, EBT), en sú aðferð er sögð hafa rutt sér til rúms í flugheiminum að því er segir í tilkynningu félagsins. Jafnframt hefur hún verið innleidd af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) þó tiltölulega fá flugfélög nýti sér aðferðina.

Nýungin í þjálfun áhafna er sögð felast í áherslum sem eru sérsniðnar að skilgreindum veikleikum og styrkleikum hvers flugfélags fyrir sig. Þar að auki mun Focus bjóða upp á lausnir til hagræðingar sem jafnframt eru sagðar stuðla að auknu öryggi í gegnum regluvörslu og þjálfun starfsmanna flugfélaga innanlands sem utan.

Starfmenn Focus eru jafnframt sagðir búa yfir viðamikilli þekkingu og reynslu á sviði flugsins og hafa verið í flugtengdum þjálfunar- og rekstarhlutverkum áhafna undanfarin 15-20 ár hjá flugfélögum á borð við Air Atlanta, Ryanair, Icelandair, Wow air og Bláfugli. Starfmenn Focus hafi einnig gengt hlutverkum innan Samgöngustofu, Flugmálastjórn Íslands og Alþjóðlegum samtökum flugfélaga (IATA).