Líkt og áður hefur verið fjallað um er fyrsta afurð hátæknifyrirtækisins Algaennovation þörungur sem nýttur er sem fóður í klakstöðvum. Það að framleiða fiskafóður er að sögn Kristins Hafliðasonar, framkvæmdastjóra félagsins, í raun stoppistöð á þeirri leið sem fyrirtækið stefnir á. Endamarkið er að hafa áhrif í baráttunni við loftslagsvána og reyna að finna nýja próteingjafa fyrir mannkynið. Erlendis höfum við séð fyrirtæki á borð við Beyond Meat og Impossible Foods reyna að leita að leiða til að framleiða próteinríkt „kjötlíki“ fyrir matarkistu heimsins. Í framtíðinni horfir Algaennovation meðal annars til slíkra félaga.

„Þau fyrirtæki sem eru að leita að lausnum á matvælavandanum, eru að leita nýrra leiða og hafa skipt út prótínum úr kjöti út fyrir prótein úr jurtaríkinu, aðallega sojaprótein. Okkar vara nýtir hins vegar bæði land og vatn miklu betur en soja auk þess að þar er bara baunin nýtt,“ segir Kiddi og bætir við að það sé ekki nóg að vera með hugmyndina heldur verði kné að fylgja kviði.

„Viðskiptaplaninu okkar er skipt upp í langtíma og skammtíma plan. Skammtíma planið, sem við vinnum eftir núna er til fimm ára og við ætlum að byggja okkur hægt og rólega upp. Markmiðið með núverandi framleiðslunni er að skapa alvöru tekjur til að skila arði til fjárfesta og geta komið okkur á þann stað að við getum farið að skipta máli eftir fimm til tíu ár. Við viljum ekki lenda í hefðbundnu nýsköpunarfyrirtækis gildrunni: að vera með flotta hugmynd og góða vöru og landa fundi með stórum og áhugasömum aðila sem vill kaupa. En þegar pöntunin kemur þá er framleiðslugetan aðeins brotabrot af því sem þarf …og þar með ertu búinn að missa af lestinni,“ segir Kiddi.

„Þegar við förum og bendum stóru strákunum á að lausnin sé í okkar vöru, þá viljum við vera orðnir það miklir bógar að þeir geti komið hingað, skoðað stóra og flotta verksmiðju og við getum skutlað á þá tveimur tonnum til prófunar strax í næstu viku.“

Spurður að því hvort fleiri aðilar út í hinum stóra heimi hafi dottið niður á sömu hugmynd – það er að taka ræktun smáþörunga úr náttúrunni og inn í stýrt umhverfi – segir Kiddi að svo sé vissulega, en engin hafi smíðað ræktunarkerfi utan um þær aðstæður sem bjóðast við jarðvarmaver.

„Í dag erum við með sjö, átta ára forskot. Við erum með heilan haug af einkaleyfum þessu tengt. Það er einkaleyfi á kælingunni, hvernig við nýtum koltvísýringinn úr virkjuninni og einkaleyfi á LED-lýsingunni. Við erum meira að segja með einkaleyfi á það hvernig við getum dregið virku efnin úr þörungunum án þess að nota leysiefni. Því til viðbótar erum við helling af ferlum og aðferðum sem við höldum innan félagsins. Auk þess er kerfið þannig að við horfum til fimm, sex mismunandi markaða sem við getum þjónustað samtímis samhliða uppbyggingu,“ segir Kiddi.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .