Í janúar á þessu ári tilkynnti kínverski tölvuframleiðandinn Lenovo að fyrirtækið myndi ráðast í tvær afdrifaríkar fjárfestingar á árinu. Annars vegar myndi það kaupa x86 netþjónadeild tölvuframleiðandans IBM og hins vegar myndi það kaupa bandaríska farsímaframleiðandann Motorola af Google. Samanlagt eru samningarnir metnir á rúma fimm milljarða Bandaríkjadollara. Kaupvirði x86 netþjónadeildarinnar af IBM er 2,1 milljarður Bandaríkjadollara og kaupvirði Motorola hleypur á 2,91 milljörðum Bandaríkjadollara. Samningurinn við Motorola er enn ekki frágenginn en í gær tilkynnti Lenovo að fyrirtækið hefði skrifað undir samning við IBM um kaup á x86 netþjónadeildinni.

David McQuarrie, framkvæmdastjóri Lenovo í Norður Evrópu, var hér á landi í síðustu viku í boði Nýherja en hann hélt erindi á ráðstefnu fyrirtækisins á Kex hostel síðastliðinn föstudag. Spurður um afdrif þessara tveggja samninga á þróun Lenovo á alþjóðamarkaði segir McQuarrie að töluverðar breytingar séu fram undan.

„Fyrir fimm árum seldi Lenovo bara PC tölvur,“ segir McQuarrie. „Fyrir tíu árum seldum við bara PC tölvur í Kína. Í dag seljum við PC tölvur, spjaldtölvur, farsíma og margt fleira út um allan heim. Næstu fimm ár verða jafnvel enn stærri.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .