Í síðasta mánuði var tilkynnt um niðurstöður samkeppni um útlit nýs hótels Íslandshótela í Lækjargötu. Vinningstillaga samkeppninnar var nokkuð umdeild og segir Davíð að verið sé að vinna hugmyndirnar áfram.

"Gláma-Kím arkitektar voru með vinningstillöguna sem er að mörgu leyti mjög flott tillaga. En það sem kannski helst hefur verið sett út á er fronturinn á byggingunni. Þetta er kannski svolítill massi þarna inn, þó að það sé leyft í skipulaginu að byggja mun meira en við erum að gera tillögu um. En við erum algjörlega opnir fyrir því að það þurfi eitthvað að aðlaga þessa götumynd,“ segir hann.

Á lóðinni þar sem reisa á hótelið fundust merkar fornminjar sem virðast vera frá því á níundu öld. Um er að ræða landnámsskála með fimm metra langeldi. Davíð segir það vera skyldu Íslandshótela að vernda minjarnar með einhverjum hætti. Vitað hafi verið að það yrði líklegt að fornminjar myndu finnast á svæðinu.

"Þannig að nú erum við að okkar frumkvæði að funda með Minjastofnun og fleiri aðilum sem koma að þessu. Við, og borgin líka, erum að ákveða hvað eigi að gera við þetta. Hugmyndir að mótast á blaði sem kynntar verða fyrir þeim aðilum á næstunni. Við munum klárlega horfa til þess að nýta þessar fornminjar eins og við getum inn í þá byggingu sem fyrirhuguð er og jafnvel eitthvað meira, við þurfum bara að sjá til.“

Ítarlegt viðtal við Davíð Torfa Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandsbanka, er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .