Auglýsingastofan Brandenburg varð til þegar þeir Ragnar Gunnarsson, Jón Ari Helgason, Hrafn Gunnarsson og Bragi Valdimar Skúlason færðu sig um set frá auglýsingastofunni Fíton og hófu eigin starfsemi í kjallarahúsnæði í Grófinni árið 2012. Þremur árum síðar starfa 22 manns hjá stofunni í húsnæði þeirra við Hafnarstræti og fyrr í mánuðinum hlaut stofan flest verðlaun á Lúðrinum, íslensku auglýsingaverð- laununum, eða fimm talsins. Slík viðurkenning skiptir stofuna ungu miklu máli að sögn Ragnars Gunnarssonar framkvæmdastjóra en hann segir að það sé fyrst og fremst mannskapurinn sem aðskilji stofuna frá samkeppnisaðilum sínum.

Svakalegt verðmæti í hugmyndum

Spurður að því hverjar hann telur vera helstu ranghugmyndirnar sem fólk hafi um starfsemi auglýsingastofa segir Ragnar að mesti misskilningurinn sé að auglýsingagerð sé auðveld og eitthvað sem allir geta gert. „Þetta er mjög erfitt starf,“ segir hann. „Það er bæði mikið áreiti og hraði sem hefur aukist verulega núna eftir því sem tækninni hefur fleygt fram. Það er líka mjög mikil áskorun að setja saman hóp sem getur fengið góðar hugmyndir. Í hnotskurn erum við að fást við viðskiptavandamál. Við- skiptavinir okkar eru með eitthvert vandamál og við þurfum að finna lausn á því og ná einhverri athygli í umhverfi þar sem skilaboð hellast til okkar úr öllum áttum.

Langmest af því sem verið er að gera nær engu flugi. Það er meira en að segja það að skapa einhverjar hugmyndir sem ná að brjótast í gegn. Það eru okkar mestu verðmæti. Þegar við byrjuðum með þennan rekstur þá var mikið leitað til okkar til þess að koma með hugmyndir fyrir herferðir, vegna þess að við vorum nýja stofan og fólk taldi að við þyrftum að sanna okkur og sýna hvað við gætum. Við fengum mjög margar beiðnir um að koma með ókeypis hugmyndir, en við ákváðum strax frá byrjun að hugmyndir eru eitthvað sem við ætlum aldrei að gefa. Það eru okkar mestu verðmæti, það er það sem við getum verið betri í en aðrir og þess vegna ætlum við aldrei að taka þátt í neinu svoleiðis án þess að fá greitt fyrir það. Það er prinsipp sem við höfum haldið í og það hefur reynst okkur mjög vel vegna þess að fólk ber virðingu fyrir því. Það geta verið svakaleg verðmæti í góðum hugmyndum,“ segir Ragnar

Nánar er rætt við Ragnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .