Seðlabankinn ætlar ekki að birta beiðni slitastjórnar Glitnis um undanþágu frá gjaldeyrishöftum í tengslum við lok á slitameðferð bankans. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir enga ákvörðun hafa verið tekna um birtingu beiðnarinnar og verði það líklega ekki gert.

Már sagði viðskiptaleyndarmál koma fram í beiðninni, fjárhagsupplýsingar um stöðu Glitnis sem varði enga aðra en slitastjórnina sjálfa.

Slitastjórnin óskaði eftir undanþágu frá höftunum í nóvember í fyrra, ítrekaði hana í ágúst síðastliðnum og svaraði Seðlabankinn henni seint í september. Beiðni slitastjórnarinnar um undanþágu var hafnað.