Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í gær frávísunarkröfum þeirra Eiríks Sigurðssonar og Hjalta Magnússonar, endurskoðanda hans í skattamáli þeirra. Málið snýst um meint brot Eiríks fyrir að hafa vantalið tekjur sínar upp á 800 milljónir króna af afleiðusamningum árið 2007 og komið sér undan því að greiða 81,3 milljóna króna í skatt.

Sérstakur saksóknari ákærði Eirík vegna málsins og endurskoðanda hans vegna meiri háttar brota gegn skattalögum. Refsingar er krafist yfir þeim báðum auk þess sem saksóknari krefst þess að Hjalti verði sviptur löggildingu til endurskoðunarstarfa.

Málið er sambærilegt nokkrum öðrum málum sem embætti sérstaks saksóknara hefur ákært í að undangenginni rannsókn skattayfirvalda. Það snýst í grófum dráttum um það hvort einstaklingar megi draga frá tap af afleiðusamningum af hagnaði innan sama tekjuárs. Fyrirtækjum er heimilt að gera slíkt en einstaklingar ekki.