„Ísland er í þeirri stöðu að það eru fjármagnshöft og það ríkir því núna bara pattstaða,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Í Morgunblaðinu í dag segir að Steinþór sé óánægður með að slitastjórn gamla Landsbankans vilji ekki hefja formlegar viðræður um að lengja í um 300 milljarða lánum bankans Hann segir það ekki koma til greina að selja  erlend lánasöfn.

Í Morgunblaðinu í vikunni að um 50 milljarða króna vanti að lágmarki í gjaldeyri upp á svo Landsbankinn geti greitt að fullu til baka skuldina við gamla Landsbankann. Blaðið sagði jafnframt að slitastjórn gamla bankans geri engu að síður ráð fyrir fullum endurheimtum enda skuldabréf bankans tryggt með sérstökum veðsamningi og Landsbankinn í eigu rikisins. Þá sagði að stór hluti erlendra eigna Landsbankans, s.s. 188 milljarða lánasafn, vera eignir sem óljóst sé hvort hægt verði að breyta í laust fé í gjaldeyri áður en kemur að þungu afborgunarferli bankans.

Steinþór fór þess á leit við slitastjórnina að lengt verði í skuldabréfi um tólf ár. Undirtektirnar voru dræmar. Hann segir ekki koma til greina að bankinn selji erlendu lánasöfnin.

„Það eru engin ný sannindi (...) að það er meiri eftirspurn eftir því að fara með gjaldeyri úr landi en að koma með gjaldeyri inn í landið. Fjármagnshöft endurspegla þessa stöðu. Slitastjórn LBI virðist því eðlilega vera dálítið upptekinn af því að sjá inn í heildarmyndina er varðar íslenska þjóðarbúið áður en farið er í að breyta einhverjum skilmálum á skuldabréfunum. Hún vill hafa vissu fyrir því að ekki þurfi að setjast aftur niður, kannski að tveimur eða þremur árum liðnum, og semja upp á nýtt vegna gjaldeyrisvanda Íslands,“ segir Steinþór.