Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Með samþykkt frumvarpsins, sem er í fyrstu umræðu á Alþingi, fær ráðherra heimild til að selja að öllu leyti eða að hluta eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, að fengnum tillögum frá Bankasýslu ríkisins. Samkvæmt frumvarpinu verður ráðherra heimilt að selja eignarhluti í Íslandsbanka, Arion banka og sparisjóðum.

Í tilviki Landsbankans er ráðherra heimilt að selja eignarhlut umfram 70% hlut ríkisins af heildarhlutafé bankans. Í athugasemdum kemur fram sú afstaða að ekki standi til að eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum fari niður fyrir 66-75% í nánustu framtíð.