Vodafone ætlar ekki að skjóta niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar í máli STEF gegn Fjarskiptum hf. Þetta kemur fram á vefsíðu Vodafone vegna málsins. Héraðsdómur fyrirskipaði lögbann að beiðni STEF á á aðgang notenda Vodafone og Hringdu þann 14. október síðastliðinn að deilisíðunum deildu.net og Pirate Bay.

„Það er mat Fjarskipta hf. að dómur hins fjölskipaða héraðsdóms í málinu hafi verið vel rökstuddur, m.a. með vísun í fordæmi Hæstaréttar í máli ÍSTORRENT. Munu Fjarskipti hf. því una niðurstöðu héraðsdóms," segir í tilkynningu vegna málsins.

Þar kemur einnig fram að lögmenn Fjarskipta fylgist með niðurstöðum í öðrum málum sem STEF sækir nú á hendur hinum fjarskiptafyrirtækjunum í því skyni að fá þau til að loka íslenskri netumferð á Deildu og Pirate Bay. Verði niðurstaðan sú sama í þeim málum er viðbúið að Vodafone loki fyrir umferð að síðunum.