Bæjarráð Vestamannaeyja hefur falið Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyja, að vísa sölunni á útgerðarfélaginu Berg-Huginn til Samkeppniseftirlitsins (SKE) í þeim tilgangi að fá samkeppnisyfirvöld til að kanna forsendur þess hvort að salan stríði gegn samkeppnislögum. Þá hefur bæjarráðið jafnframt falið bæjarstjóranum stefna bæði seljanda og kaupanda til að virða mögulega forkaupsrétt sem sveitafélaginu kann að vera tryggður skv. lögum um stjórn fiskveiða.

Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs á þriðjudag en sem kunnugt er keypti Síldarvinnslan í Neskaupsstað allt hlutafé Berg-Hugins í lok ágúst sl.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku telur Vestmannaeyjabær að Samherji, stærsti einstaki hluthafinn í Síldarvinnslunni, og tengd félög eigi eftir kaupin rúmlega 17% hlut í aflaheimildum landsins sem er umfram leyfilegt hámark.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, lagðist strax gegn kaupunum sl. haust og vísaði til þess að Vestamannaeyjabær ætti forkaupsrétt á bréfum félagsins. Þá segir í bókun bæjarráðs frá því á þriðjudag að Vestmannaeyjabæ hafi ekki verið boðinn forkaupsréttur né heldur hafi útgerðin verið boðin til kaups til fjárfesta eða útgerðarmanna í Eyjum.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu sem kemur út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.