Hraðflutningsfyrirtækið DHL býður nú upp á sendingar á bréfum til útlanda, séu bréfin send sem viðbóð við aðra flutningsþjónustu. Samkvæmt lögum um póstþjónustu hefur íslenska ríkið einkaleyfi á póstþjónustu hér á landi séu bréf undir 50g. Einkaleyfið tekur bæði til dreifingu bréfa innanlands og sendingu þeirra til útlanda, samkvæmt upplýsingum frá Póstinum.

„Með þessu er DHL að auka þjónustuframboð til viðskiptavina sinna og jafnframt að stuðla að virkri samkeppni í póstþjónustu til útlanda," segir í tilkynningu.

„Viðskiptavinum sem nýta sér jólatilboð okkar fer fjölgandi ár frá ári og reglulega höfum við fengið fyrirspurnir frá þeim um hvort ekki sé hægt að senda jólakortin með okkur líka, sem og almennan póst til útlanda. Það má því segja að með þessu séum við að verða við kröfum og óskum viðskiptavina okkar, “ segir Atli Freyr Einarsson, framkvæmdastjóri DHL á Íslandi.  „Við eigum von á því að fólk taki þessu framtaki fagnandi, enda virk samkeppni af hinu góða,” bætir Atli við.