Hámarkslán Íbúðalánasjóðs til einstaklinga hefur verið hækkað úr 20 milljónum króna í 24. Sjóðnum er nú aðeins heimilt að veita lán vegna kaupa á eignum sem kosta allt að 40 milljónum í stað 50 áður. Reglugerð þessa efnis hefur þegar tekið gildi.

Fyrir árið 2012 var ekkert þak á hámarksverðmæti þeirra eigna sem sjóðurinn mátti lána einstaklingum til kaupa á. Þetta ár var hins vegar gerð breyting á lögum og sett 50 milljóna króna þak sem nú hefur sem sagt verið lækkað í 40 milljónir. Hámarkslánsfjárhæð Íbúðalánasjóðs, sem samkvæmt nýju reglugerðinni er 24 milljónir, hafði ekki verið hækkuð síðan árið 2008 þegar hún fór úr 18 milljónum í 20.

Staða sjóðsins undanfarin misseri hefur verið þannig að útlán hafa dregist mikið saman á meðan uppgreiðslur lána hafa aukist ár frá ári. Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í ágúst námu 316 milljónum króna, en þar af voru 297 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í ágúst í fyrra 902 milljónum króna. Í ágúst síðastliðnum námu uppgreiðslur lána 3,5 milljörðumsamanborið við 2,7 milljarða í sama mánuði í fyrra. Ef litið er aftur til ársins 2008 sést vel hvernig starfsemi sjóðsins hefur breyst. Í ágúst það ár námu heildarútlánin 5,7 milljörðum og þar af voru 4,3 milljarðar vegna almennra lána.

Félagslegur sjóður

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að í júlí 2011 hafi Eftirlitsstofnun EFTA beint þeim tilmælum til stjórnvalda að grípa til viðeigandi aðgerða til þess að laga starfsemi sjóðsins að ríkisaðstoðarreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) og voru þær lagabreytingar sem samþykktar voru á Alþingi í júní 2012 liður í þeim aðgerðum.

Hún segir að nú sé verið aðlaga starfsemi Íbúðalánasjóðs enn frekar að ríkissaðstoðarreglum EES-samningsins. Verið sé að tryggja að lánveitingar sjóðsins samrýmist félagslegu almannaþjónustuhlutverki hans. Ekki þyki samrýmast því hlutverki að sjóðurinn láni vegna kaupa á húsnæði sem kosti meira en 40 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .