Frá því að fregnir bárust af því að Michele Roosevelt Edwards, áður þekkt undir ættarnafninu Ballarin, hefði keypt ýmsar eignir hins fallna Wow air hefur þess verið beðið að Wow 2.0 hefji sig til lofts líkt og fuglinn fönix úr öskuhrúgu. Nokkur bið hefur orðið á því og enn ekki ljóst hvort eða hvenær af jómfrúrferðinni verður. Verði niðurstaðan sú að Wow 2.0 klikki er það ekki í fyrsta sinn sem háfleyg viðskiptamarkmið eigandans brotlenda.

Í júlí var sagt frá því að félag í eigu Edwards hefði keypt flugrekstrartengdar eignir úr þrotabúi Wow. Í byrjun september hélt hún blaðamannafund hér á landi þar sem áætlanir félagsins voru kynntar. Kom þar meðal annars fram að jómfrúrflugið væri áætlað í október milli Keflavíkurflugvallar og Dulles-flugvelli í Washington DC. Wow 2.0 átti að vera lággjaldaflugfélag en þó með setustofu fyrir farþega á Keflavíkurflugvelli. Þá áttu Michelin-stjörnukokkur að sjá um veitingar um borð í vélum félagsins. Nú er árið senn á enda og ekki margt sem bendir til þess að hið endurreista félag muni fljúga fyrr en á næsta ári.

Líkt og Edwards sýndi á blaðamannafundi sínum hér á landi þá skortir ekkert á hugmyndaflug hennar. Í gegnum tíðina hefur það þó verið svo að framkvæmd hefði getað farið betur. Árið 2013 landaði félag í hennar eigu, Oasis Group International, samningi við stjórnvöld í Home Bay-sýslu í Kenýa um að leggja malbik á 205 kílómetra kafla. Fyrir verkið skyldi greiða 3,3 milljarða keníska sjillinga, andvirði um 37,6 milljóna bandaríkjadollara á þeim tíma. Samkvæmt umfjöllun ytra virðist sem framkvæmdir hafi ekki gengið líkt og ætlað var og um skeið var verkkaupi í basli við að endurheimta þá fé sem þegar hafði verið greitt vegna hennar.

Nánar má lesa um önnur ævintýri Roosevelt Edwards í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Verslunarmaður segir aukna verslun í verslunarmiðstöðvum í aðdraganda jóla vega upp á móti miklum samdrætti á Laugavegi
  • Veltan í tölvuleikjaiðnaðinum og vaxtatækifæri til framtíðar skoðuð
  • Ítarleg úttekt á brostnum vonum um úrbætur á olíumörkuðum í kjölfar stærsta hlutafjárútboðs sögunnar
  • Sprotaráðstefnan Slush í Finnlandi var sótt heim af öflugum hópi Íslendinga
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra Samhjálpar sem safnar fyrir jólamáltíðum gesta kaffistofu samtakanna
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um óhæfu hæfnisnefndar dómara
  • Óðinn skrifar um einkarekna fjölmiðla og ríkisútvarp