Michael Sandford sem er nítján ára gamall Breti var handtekinn á kosningasamkomu Donald Trump eftir að hafa reynt að hnappa byssu af lögregluþjóni. Hann hafði þá ætlað sér að nota hana til að skjóta og deyða forsetaframbjóðandann, sem býður sig fram fyrir hönd Repúblikanaflokksins bandaríska.

Sandford ferðaðist frá Kaliforníu til Las Vegas með þessa áætlun í huga. Þegar þangað var komið hóf hann samtal við lögregluþjón undir því yfirskini að fá hjá honum eiginhandaráritun. Meðan hann skrifaði eiginhandaráritunina reyndi Sandford að grípa skammbyssu lögreglumannsins úr hulstrinu sem hékk við mjöðm hans.

Aðrir lögregluþjónar á svæðinu voru fljótir að bregðast við og sneru Sandford niður áður en honum tókst að fremja illdæðið. Vegabréf Sandford hafði þá runnið út mánuði áður en atvikið átti sér stað. Hann bjó í bifreið sinni í Kaliforníu áður en hann lagði upp í ferðalagið til Las Vegas.

Sandford sagði að ef tilræðið hefði ekki gengið upp í Las Vegas, þá hefði hann einfaldlega ferðast til Phoenix í Arizona og reynt aftur þar. Ljóst er því að banatilræðið áætlaða var ekki eitthvað stundarbrjálæði, heldur þaulhugsaður brotavilji. Ástæður þessa áætlaða tilræðis liggja ekki fyrir að svo stöddu.