Björn Leifsson seldi íbúð og bíl til að opna fyrstu World Class stöðina árið 1985. Hann  segir að það eftirminnilegasta sem gerst hafi á ferlinum hafi verið þegar Laugar voru opnaðar.

„Það var svakalegt skref. Það er gaman frá því að segja að þessi hugmynd að Laugum kom upp árið 1987, þótt hún hafi kviknað fyrr. Þegar ég var í vélskólanum hérna 1979 þá vorum við mikið í lauginni og lásum fyrir prófin. Það var mjög gott vor. Mér fannst alltaf vanta meiri stemningu í Laugardalslaugina og starfsfólkið var svona frekar stíft. Það vantaði músík og stemningu. Þannig að 1987 kom upp sú hugmynd að setja upp líkamsrækt í Laugardalslauginni. Þá voru þeir að byggja nýju klefana og ég vildi komast í gömlu klefana með líkamsræktarstöð,“ segir Björn.

Á fund Davíðs Oddssonar

„Ég pantaði fund með Davíð Oddssyni sem þá var borgarstjóri og honum fannst hugmyndin athyglisverð. Ég hafði verið fóstraður til Júlíusar Hafstein sem þá var yfir íþróttamálum. Ég átti töluvert marga fundi með Júlíusi í eitt og hálft ár og þetta kom í alla fjölmiðla og viðtal við mig og Júlíus á laugarbakkanum og svona.

Ég var náttúrulega svo sniðugur að ég byrjaði á að segja að ég myndi skipta út öllu starfsfólkinu og fékk þannig alla á móti mér strax. Ég slátraði þessu með einni setningu, eins og mér er nú tamt,“ segir Björn og hlær hátt. Eftir það hefði hann skotið ýmsum hugmyndum að borgaryfirvöldum, en engin þeirra hlaut náð fyrir þeirra eyrum. Björn segir að hann hafi meðal annars stungið upp á því að Laugar yrðu byggðar neðanjarðar. „Þá var mér loksins hent út af borðinu,“ bætir hann við og brosir.

Þannig að Laugar áttu að vera neðanjarðar? „Þá, já, fyrst ég fékk ekki að byggja ofanjarðar. Síðan gerist ekkert í málinu fyrr en Ingibjörg Sólrún er kosin borgarstjóri. Þá dustaði ég rykið af þessum hugmyndum aftur og arkaði á fund hjá Ingibjörgu. Hún tók svona vel í hugmyndina og þá var á sama tíma verið að boða til arkitektasamkeppni um innilaugina. Þannig að þau ákváðu að hafa líkamsræktarstöð með í samkeppninni. Það gekk upp og ég hef oft sagt í gríni að Ingibjörg sé eiginlega guðmóðir Lauga.“