Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er yfirframleiðandi hjá sænska tölvuleikjafyrirtækinu DICE og stýrði hún framleiðslu eins stærsta tölvuleiks síðasta árs, Star Wars Battlefront. Leikurinn hefur selst í yfir 14 milljónum eintaka, en DICE er í eigu tölvuleikjarisans Electronic Arts.

Það má segja að Sigurlína hafi ekki farið hina hefðbundnu leið inn í heim tölvuleikja. Eftir að hafa útskrifast úr MR, þar sem hún var meðal annars í stjórn Herranætur í tvö ár og síðan ritstjóri Skólablaðsins, hóf hún störf hjá Leikfélagi Íslands í Iðnó og ferðaðist að því loknu um Suðaustur-Asíu. Í kjölfar ferðalagsins skráði hún sig í nám í véla- og iðnaðarverkfræði í Háskóla Íslands en viðurkennir að hafa enn verið óákveðin við útskrift þaðan.

„Ég vissi ekki alveg hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Við útskrifumst 2002 og mjög margir af mínum vinum og félögum fóru að starfa hjá bönkunum. Ég vissi ekki alveg af hverju allir voru að fara þangað og hafði engan metnað fyrir því,“ segir Sigurlína. Hún réð sig til Delta þar sem hún var verkefnastjóri í lyfjaþróunardeild í þrjú ár. Í kjölfarið fór hún að vinna sem verkefnastjóri í viðskiptaþróun hjá Högum en þar fann hún sig ekki.

„Þetta endaði með því að ég fór á fyrirlestur með Hilmari [Veigari Péturssyni] í CCP þar sem hann var að tala um EVE Online og fyrirtækið. Mér fannst allt sem hann var að segja mjög spennandi og mér fannst EVE ótrúlega heillandi heimur, þannig að það endaði með því að ég fór og kynnti mig fyrir honum og sex vikum síðar var ég byrjuð að vinna hjá CCP. Þar með byrjaði þetta tölvuleikjaævintýri dálítið óvart.“

Hélt maður yrði að kunna að forrita

Varst þú eitthvað í tölvuleikjum þegar þú varst yngri?

„Ég hafði alltaf spilað tölvuleiki að einhverju leyti og ég á rosa marga vini sem eru mikil nörd. Ég myndi segja að ég væri sjálf frekar mikið nörd og ég hafði gaman af vísindaskáldsögum, fantasíum, borðspilum og hlutverkaleikjum. En ég hélt að til þess að vinna í tölvuleikjabransanum þyrfti maður að vera forritari og kunna að forrita. Ég áttaði mig ekki á því að það væri krafist svona fjölbreyttrar menntunar og bakgrunns. Ég ætlaði alltaf að vera mjög alvarleg á framabraut, ég ætlaði að stjórna álveri. Það er minn bakgrunnur í iðnaðarverkfræði og svo er ég kannski núna búin að finna mitt álver þó þetta sé örlítið öðruvísi en ég hafði gert ráð fyrir. Tölvuleikjaframleiðsla á þessu stigi sem ég vinn á í dag er brjálæðislega flókin, það vinna tugir eða hundruð manna í mjög ólíkum störfum og þetta er samblanda af vísindum, tækni og list.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .