„Gerum Ameríku frábæra á ný,” sagði Donald Trump í ræðu sem hann hélt í Liberty-háskóla í Virginíu í gær. „Við ætlum að koma hlutunum í gang. Við ætlum að fá Apple til að byrja að framleiða skrambans (e. damn) tölvurnar sínar og hlutina sína í þessu landi í staðinn fyrir önnur lönd.”

Tæknirisinn Apple framleiðir þorra söluvara sinna í öðrum löndum en Bandaríkjunum, en öll hönnun og vöruþróun fyrirtækisins fer fram í Cupertino í Kaliforníuríki. Ástæðan fyrir þessari útrás í framleiðslu er einna helst að vinnukostnaður er talsvert lægri í Asíu en í Bandaríkjunum.

Þó hefur Apple og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Tim Cook gert tilraunir til að færa framleiðslustörf til Bandaríkjanna. Árið 2012 gerði félagið fjárfestingartilraun með 100 milljónir bandaríkjadala í innlendri framleiðslu. Þetta kemur fram á vef Bloomberg.