Breska fjármálafyrirtækið Lloyds Banking Group mun segja upp um 9.000 starfsmönnum, eða um 10% af heildarfjölda starfsmanna, á næstu þremur árum, að því er segir í frétt BBC.

Þá er gert ráð fyrir því að útibúum verði lokað. Aðgerðirnar eru viðbrögð við því að sífellt fleiri viðskiptavinir eiga sín bankaviðskipti í gegnum netið.

Frá bankahruninu 2008 hefur starfsmönnum Lloyds fækkað um 30.000. Eftir björgunaraðgerðir breska ríkisins á það enn um 25% hlut í bankanum, en átti mest 39% hlut. Frá því í september í fyrra hefur ríkið selt hluta af eignarhlut sínum.