Elon Musk forstjóri Tesla segir höfuðstöðvar rafbílaframleiðandans verða færðar til Texas- eða Nevadafylkis eftir útistöður við yfirvöld Alameda sýslu í Kaliforníufylki, hvar höfuðstöðvar félagsins eru til húsa í dag. Um 10 þúsund manns vinna í verksmiðju Tesla í Alameda.

Tesla hefur einnig lagt fram kæru gegn sýslunni vegna útgöngubanns þar, sem Musk segir ganga gegn fyrirskipunum forsetans, fylkisstjórans, stjórnarskránni og heilbrigðri skynsemi.

Forstjórinn yfirlýsingaglaði segir yfirmann heilbrigðismála hjá sýslunni ókjörinn og fávísan, og útgöngubannið fasískt og ólýðræðislegt.

Nokkuð fjaðrafok var í kringum lokun verksmiðju Tesla í Fremont, Alameda-sýslu í lok mars. Tesla hélt upphaflega áfram framleiðslu og vildi meina að hún teldist til nauðsynlegrar innviðastarfsemi og væri undanþegin útgöngubanni sýslunnar. Að lokum var þó framleiðslu hætt, viku eftir að útgöngubannið tók gildi.

Í gær tilkynnti rafbílaframleiðandinn svo að „takmörkuð starfsemi“ yrði gangsett að nýju í verksmiðjunni, en það sögðu embættismenn sýslunnar brjóta í bága við útgöngubannið, og vöruðu fyrirtækið við að hefja framleiðslu á ný.

Gavin Newsom fylkisstjóri Kaliforníufylkis leyfði á fimmtudag takmarkaða iðnframleiðslu, en tók þó skýrt fram að leyfið hefði ekki forgang yfir fyrirmæli sýsluyfirvalda. Tesla hafði sem fyrr segir viljað meina að starfsemi þess flokkaðist sem nauðsynleg innviðastarfsemi, en því voru yfirvöld ekki sammála.

Umfjöllun The Verge .