Á hverju ári hefur Mark Zuckerberg, stofnandi facebook, verið með áhugaverð áramótaheiti. Eitt sinn setti hann sér markmið um að hlaupa 365 mílur á árinu og í hitt skiptið setti hann sér lestrarmarkmið. Í ár ætlar hann sér aftur á móti að kynnast Bandaríkjunum betur.

Þetta kemur fram í færslu á facebooksíðu stofnandans, en hann ætlar sér fyrir árslok að vera búinn að heimsækja hvert einasta fylki í Bandaríkjunum. Samkvæmt Zuckerberg þarf hann þó einungis að fara til 30 fylkja, til þess að ná markmiði sínu.

Getgátur hafa verið á lofti um að hann ætli sér þar með að undirbúa sig fyrir framboð til forseta Bandaríkjanna eftir fjögur ár. Það telst þó afar ósennilegt, en ekki er hægt að útiloka það. Samkvæmt færslu Zuckerberg, er meiningin að sýna fordæmi og ræða við fólk um framtíðina.