*

laugardagur, 4. júlí 2020
Erlent 5. maí 2018 14:58

Ætlar að flýta komu Tesla til Íslands

Á milli þess sem Musk hótar skortseljendum Tesla og þrætir við fjármálagreinendur segist hann ætla að flýta fyrir opnun Tesla umboðs hér á landi.

Snorri Páll Gunnarsson
Elon Musk, forstjóri Tesla.
european pressphoto agency

Elon Musk, stofnandi og forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla, ætlar að flýta fyrir opnun Tesla-umboðs á Íslandi, ef marka má svar frá opinberu Twitter-síðu Musks við fyrirspurn annars notanda. Musk biðst á sama tíma afsökunar á því hversu langan tíma það hefur tekið fyrir Tesla að nema hér land.

Fyrirspurnin barst frá notandanum A Tesla In ICEland, en þar er á ferð Jóhann G. Ólafsson, formaður Rafbílasambands Íslands.

Í upprunalega tístinu segir Jóhann: „Á Íslandi, þar sem 350 þúsund manns búa, seldust fleiri rafbílar en í bæði Danmörku og Finnlandi á síðasta ári. Tesla er starfandi í báðum löndum en ekki á Íslandi. Elon Musk, hvað þyrfti til að fá umboðið til Íslands?“

Hófstillt svar Musks kom aðeins þremur mínútum eftir að honum barst fyrirspurnin. Kom það nokkuð á óvart, miðað við það sem á undan hafði gengið hjá kappanum.

Tesla hélt símafund um fjármál fyrirtækisins síðastliðinn fimmtudag þar sem Musk neitaði að svara spurningum greiningaraðila. Einn greinandi hjá Morgan Stanley orðaði það svo að fundurinn hafi verið sá allra óvenjulegasti sem hann hafi nokkurn tímann upplifað.

„Heimskulegar, leiðinlegar og þurrar,“ voru orð sem Musk notaði yfir spurningar greinenda frá Bernstein og Royal Bank of Canada á fundinum um fjárfestingarútgjöld Tesla og eftirspurn eftir Model 3. Í kjölfar fundarins tóku hlutabréf í Tesla dýfu, en hafa nú að einhverju leyti náð sér á strik aftur. 

Frá símafundinum hefur Musk átt í skærum við fjármálagreinendur á Twitter um símafundinn. Nú síðast í dag sagði Musk skortseljendum Tesla að hafa varann á, því ótrúlegt „blóðbað skortseljenda“ væri í nánd.