Ed Miliband, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur gefið út að lágmarkslaun í Bretlandi muni hækka upp í átta pund á klukkutímann, jafnvirði tæplega 1600 íslenskra króna, á næsta kjörtímabili ef flokkurinn kemst til valda í næstu kosningum. Fjallað er um málið á vef BBC.

Lágmarkslaun í Bretlandi eru í dag 6,31 pund á tímann en hækka í október upp í 6,50 pund. Í síðustu kosningum, árið 2010, voru lágmarkslaunin 5,80 pund fyrir klukkutíma vinnu.

Miliband sagði í gær að ekki sé ásættanlegt að einn af hverjum fimm Bretum sé á lágum launum og því verði að grípa til aðgerða í þágu launafólks. Þingkosningar í Bretlandi fara fram í maí á næsta ári og greinilegt að kosningabaráttan er hafin.

Talsmenn annarra flokka í Bretlandi hafa gagnrýnt kosningaloforðið. Þannig er haft eftir ráðherra Íhaldsflokksins að fólk eigi ekki að hlusta á Verkamannaflokkinn, sem sé ábyrgur fyrir efnahagserfiðleikum þess. Talsmenn Frjálslyndra Demókrata benda á að besta leiðin til að hjálpa fólki sé að lækka skatta. Verkamannaflokkurinn hafi hins vegar verið ófús til þess.