Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mun hitta forystumenn allra flokka í Alþingishúsinu í dag í kjölfar þess að hún fékk stjórnarmyndunarumboðið frá forseta Íslands.

Mun hún hitta Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir að hafa gefið honum afdráttarlaust afsvar við samstarfi meðan hann hafði stjórnarmyndunarumboðið. Þetta kemur fram á vef RÚV .

Ætlaði ekki í ríkisstjórn eftir afhroð

Þó hittir hún hann síðast af öllum, en hins vegar byrjar hún á að hitta Loga Má Einarsson, formann Samfylkingarinnar klukkan hálf tíu, en ef hún ætlar að ná að mynda fimm flokka ríkisstjórn án fráfarandi ríkisstjórnarflokka þarf hún á þrem þingmönnum þeirra til.

Samfylkingin hafði meðan hún var undir forystu Oddnýar Harðardóttur gefið í skyn í kjölfar afhroðsins sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum að hann myndi ekki fara í ríkisstjórn.

Miðjubandalagið mætir áfram saman

Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson, formenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar munu mæta saman á fund Katrínar klukkan hálf tólf, líkt og þeir gerðu í aðdraganda stjórnarmyndunarviðræðnanna við Bjarna Benediktsson sem upp úr slitnaði í lok síðustu viku.

Katrín mun svo hitta Sigurð Inga klukkan tvö og svo klukkan hálf fjögur hittir hún sendinefnd Pírata og svo loks Bjarna klukkan fimm.