„Ég hef mikið verið að fást við málefni atvinnulífsins og það umhverfi sem atvinnulífinu hefur verið búið frá stjórnsýslunni séð. Að sumu leyti má segja að ég sé nú að koma að málefninu frá hinni hliðinni sem ég hef mikinn áhuga á að fá að taka þátt í, því það kemur sér best fyrir alla ef umgjörð atvinnulífsins er sem best," segir Svanhildur Hólm Valsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

„Ég er búinn að lifa mjög sögulega tíma í íslenskri pólitík og sé ég ekki eftir þeim tíma, þetta hefur verið skemmtilegt, en ég er núna svona aðeins að uppgötva hvað maður gerir við óvæntan frítíma áður en ég byrja í nýju vinnunni.

Þetta gerðist allt mjög hratt, en ég hætti í fjármálaráðuneytinu um leið og ráðningin var tilkynnt og er ótrúlega skrýtið að vera allt í einu komin út úr þessu umhverfi sem maður hefur lifað og hrærst í síðustu ellefu árin.

Áður en ég var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar þá var ég framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, svo stjórnmál og stjórnsýsla hefur verið daglegt líf hjá mér, hvort sem það er virkur dagur eða helgi, síðan sumarið 2009."

Svanhildur starfaði þar áður á Stöð 2, en þegar þarna var komið sögu langaði hana að klára lögfræðinám sitt og hætti þá hjá sjónvarpsstöðinni.

„Ég byrjaði sem blaðamaður á Degi á Akureyri, en það gerðist þannig að ég skrifaði grein í blaðið og hitti á ritstjórann þegar ég skilaði henni inn í eigin persónu, og þá spurði ég bara hvort það vantaði ekki einhvern starfskraft. Það var mjög gaman að vinna þar, lítið blað og maður fékk að gera allt mögulegt," segir Svanhildur sem vann um tíma fyrir blaðið samhliða lögfræðinámi í Reykjavík.

„Ég man að árið 1995 var ég send til að skrifa um kynningu fjárlagafrumvarpsins, sem mér þótti mjög áhugavert og voru svona fyrstu kynni mín af því, 18 árum áður en ég labbaði inn í fjármálaráðuneytið sem starfsmaður. Síðan fór ég að vinna á svæðisútvarpinu fyrir norðan, þaðan fór ég á Rás 2, fyrst í sumarstarfi og svo í morgunútvarpið þar sem ég var í þrjú ár og svo fór ég í Kastljósið."

Svanhildur er gift Loga Bergmanni Eiðssyni fréttamanni. „Við eigum slatta af börnum saman og hvort í sínu lagi, við erum lítið að flokka þau, en við erum með þrjár stelpur heima, þær eru 10, 14 og 17 ára. Núna stefni ég, eins og maður ætlar alltaf, á að nota þetta nokkurra vikna leyfi til að verja tíma með fjölskyldunni og vinum. Ég ætla að klára internetið, en samt vera lítið á samfélagsmiðlum, lesa eitthvað skemmtilegt, bæði krimma og Neil Gaiman, og kjarna sjálfa mig vel fyrir næstu áskorun."