„Við ætlum að koma hjólum atvinnulífsins í gang, eða öllu heldur koma jólum atvinnulífsins í gang,“ segir Bragi Valdimar Skúlason í Baggalúti. Sala á jólatónleika Baggalúts hófst klukkan tíu í morgun. Þetta er í sjöunda sinn sem tónleikarnir fara fram. „Þetta er alltaf mikið stuð og verður alltaf meira og meira stuð,“ segir Bragi Valdimar.

Í auglýsingu á vefnum miði.is segir að gull-, látúns-, og flauelsbarkar sveitarinnar sjá um að koma gestum í jólafílinginn með fulltingi einvalaliðs hljóðfæraleikara, tæknimanna, sviðshönnuði og ljósameistara.

Bragi Valdimar Skúlason segir að gömul jólalög verði spiluð í bland við efni af nýrri kántríplötu sem kemur út í næsta mánuði. Platan var tekin upp í Nashville.