Mukesh Ambani, ríkasti maður Indlands, ætlar sér svo sannarlega að netvæða þjóðina. Í vikunni kynnti hann Reliance Jio til leiks, farsímaþjónustu sem gerir 80% Indverja kleift að tengjast 4G neti. Notendur Reliance Jio munu ekki þurfa að greiða fyrir hana út árið, en eftir áramót mun mánaðargjaldið einungis nema um 149 rupees, sem jafngildir 260 krónum.

Fátækustu svæði borganna og sveitir Indlands hafa lítið þróast í gegnum árin. Hingað til hafa einungis 20% fullorðinna einstaklinga á Indlandi geta tengst Internetinu. Reliance Jio mun því að öllum líkindum bæta lífsgæði Indverja og aðgengi þeirra að upplýsingum og hverskyns fróðleik til muna.

Metinn á ríflega 22,4 milljarða Bandaríkjadala

Ambani, sem er metinn á ríflega 22,4 milljarða Bandaríkjadala, er stærsti hluthafi Reliance Industries Limited. Reliance hefur sérhæft sig í framleiðslu á vefnaðarvörum og olíuvinnslu, auk þess sem fyrirtækið rekur stærstu verslunarkeðju landsins. Á síðustu árum hefur hann látið setja upp 100.000 fjarskiptaturna, sem ná til allt að 18.000 borga og 200.000 bæja.

Með Reliance Jio, er Mukesh Ambani að koma sér aftur á kortið í farsímamálum. Fyrir 15 árum kom hann sér út úr Reliance Communications, eftir erjur við bróður sinn, sem rekur félagið um þessar mundir. Bræðurnir hafa þó náð sáttum og því munu viðskiptavinir Reliance Jio, einnig geta tengst Reliance Communications rásum.

Airtel hefur lækkað verð um 80%

Helstu fjarskiptafyrirtæki Indlands hafa brugðist við, með því að fella verðin sín og bjóða upp á talsvert meira gagnamagn. Samkvæmt Bloomberg hefur Airtel til að mynda lækkað verð internetþjónustunnar sinnar um 80%. Vodafone á Indlandi hafa svo aukið gagnamagn viðskiptavina sinna um 70%.

Fjárfestingin er ekki áhættulaus. Milljarðamæringurinn hefur varið 20 milljörðum dala í verkefnið og því verður spennandi að sjá hvort að áætlun Mukesh Ambani takist.