Ákveðið hefur verið að opna 470 fermetra Lindex-verslun í Glerártorgi á Akureyri 16. ágúst næstkomandi. Samningur á milli forsvarsmanna Eikar fasteignafélags og Lindex hefur þegar verið undirritaður. Verslunin verður í norðurhluta Glerártorgs. Gert er ráð fyrir að um 12 ný störf skapist í verslun Lindex á Akureyri.

Haft er eftir þeim Lóu D. Kristjánsdóttur og Alberti Þór Magnússyni, umboðsaðilum Lindex á Íslandi, að þetta sé frábært skref. Nú þegar eru tvær verslanir undir merkjum Lindex hér á landi. Verslun opnaði í Smáralind árið 2011 og Lindex Kids í Kringlunni í fyrra.

Lindex er ein stærsta tískufatakeðja Norður Evrópu með um 450 verslanir í 16 löndum. Lindex býður upp á tískufatnað fyrir konur, undirföt og fylgihluti sem og fatnað á börn og unglinga á hagkvæmu verði.