Gunnar Helgi Hálfdánarson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði á aðalfundi bankans í dag að hann hyggðist skrá tvö félög í sinni eigu á markað á þessu ári. Hann lýsti vilja bankans til að hægt yrði að meta lánshæfi hans á alþjóðamörkuðum en mikilvægur undanfari væri vel heppnuð lántaka ríkissjóðs á erlendum lánamarkaði. Gunnar Helgi sagði Landsbankann vilja taka öflugan þátt í hagræðingu á fjármálamarkaði og hefði til þess þann styrk sem þyrfti.

Aðalfundur bankans var haldinn í dag og er fjallað um á vef Landsbankans .

Á aðalfundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf, reikningar bankans voru samþykktir og allar tillögur sem fyrir voru lagðar sömuleiðis. Bankaráð Landsbankans var allt endurkjörið, Gunnar Helgi Hálfdanarson verður áfram formaður og Sigríður Hrólfsdóttir varaformaður. Aðrir bankaráðsmenn eru þau Þórdís Ingadóttir, Guðríður Ólafsdóttir og Ólafur H. Ólafsson. Fyrsti varamaður er Andri Geir Arinbjarnarson sem jafnframt situr alla fundi bankaráðsins.

Landsbankinn lögheiti

Þá var samþykkt að breyta lögheiti bankans í Landsbankinn hf. „Er þetta í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu bankans um að mikilvægara sé að breyta hugarfari en að skipta um nafn. Nafnið Landsbankinn hefur verið og verður vörumerki bankans. Nafnið NBI hf. sem verið hefur lögheitið verður með þessu lagt niður,“ segir á vef bannkans.