Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, sem Twitter keypti í janúar segist aldrei ætla að taka að sér að verða forstjóri fyrirtækis á ný. Í færslu á Twitter segir hann að í starfi forstjórans felist að halda fjölmörgum boltum á lofti, þar sem hlutirnir skarist oft á og taki stöðugum breytingum. Það sé ómögulegt að gera allt rétt óhjákvæmilega verði mistök gerð og einhverjir verði sárir. Því ætli hann ekki að taka að sér á ný að verða forstjóri.

Haraldur segist vera að vinna úr því hvað áhrif starfið hafi haft á sig, fjölskyldu sína og vini. Þó hafi margt verið gott við að stýra eigin fyrirtæki en smátt og smátt hafi álagið tekið á. Sér í lagi á síðasta ári.

Haraldur stofnaði Ueno árið 2014 og var valinn viðskiptafræðingur ársins árið 2019 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Umsvif fyrirtækisins hafa aukist hratt á síðustu árum. Fyrirtækið velti 2,1 milljarði árið 2019 og hagnaðist um 115 milljónir króna. Ueno hefur unnið fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum heims á borð við Google, Facebook og Apple, Walmart og svo auðvitað Twitter sem keypti fyrirtækið í byrjun ársins.

Sjá einnig: Óvenjuleg saga Haraldar og Ueno

Haraldur greindi nýlega frá því á Twitter að hann myndi greiða alla skatta af sölunni á Ueno á Íslandi. Hann vilji gefa til baka til kerfisins sem studdi hann.