Lögmaðurinn Gestur Jónson, verjandi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, ætlar að halda fast í þá ákvörðun sína að segja sig frá Al Thani-málinu. Hann tilkynnti ákvörðun sína á blaðamannafundi í gær. Ragnar H. Hall, verjandi Ólafs Ólafssonar, ætlaði þar sömuleiðis að stíga frá málinu. Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur synjaði hins vegar beiðni þeirra í gær.

Fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að málið sé komið í hnút og óvíst hvort aðalmeðferð í Al Thani-málinu hefjist í vikunni. Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson sagðist í samtali við fréttastofuna telja að verjendur geti ekki sagt sig frá málum. Dómari geti haldið áfram með aðalmeðferð eins og dagskrá segi til um. Mæti Gestur ekki í aðalmeðferð komi það niður á skjólstæðingi hans, í þessu tilviki Sigurði Einarssyni.