Alan Mulally, forstjóri bandaríska bílarisans Ford, hefur ekki í hyggju að sækja um starf sem næsti forstjóri hugbúnaðarrisans Microsoft. Þvert á móti ætlar hann að halda áfram að stýra bílaframleiðandanum. Margir hafa verið orðaðir við starfið eftir að Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, sagði í ágúst í fyrra að hann ætli að yfirgefa fyrirtækið innan tólf mánaða. Mulally er einn þeirra sem nefndur hefur verið til sögunnar sem hugsanlegur eftirmaður Ballmer.

Mulally segir hins vegar í samtali við AP-fréttastofuna í dag að hann ætli að halda áfram að vinna hjá Ford á þessu ári. Hann vill hins vegar hvorki játa né neita því hvort hann hafi rætt við stjórn Microsoft um málið eður ei.

Hvað sem því líður er allt á fullu hjá Ford og munu 23 bílar eða ný módel undir merkjum Ford líta dagsins ljós á árinu. Það er rúmlega tvöfalt meira en í fyrra.