*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 7. júlí 2019 15:01

Ætlar ekki að tengja sig botnlausri hít

„Ég hef aldrei unnið í stjórnsýslunni eða tengst pólitík. Ég er ráðinn hingað til að reka hlutafélag," segir forstjóri Póstsins.

Jóhann Óli Eiðsson
„Ef maður þarf að leita á náðir eiganda eða banka eftir frekara fé þá er betra að hafa eitthvert plan,“ segir Birgir.
Eva Björk Ægisdóttir

Mörg dæmi eru til af einstaklingum sem færa sig í störf hjá opinbera geiranum og verða fljótt samdauna kerfinu þar sem „hlutirnir hafi alltaf verið svona“. Slíkt er ekki möguleiki í huga Birgis Jónssonar, nýs forstjóra Íslandspósts.

„Ég hef aldrei unnið í stjórnsýslunni eða tengst pólitík. Ég er ráðinn hingað til að reka hlutafélag og ég mun frekar láta slá á puttana á mér fyrir að ganga of langt heldur en að hugsa eins og kerfiskall. Ef stjórnin, sem er viðskiptalega þenkjandi og stendur alfarið með mér í þessu, hefði viljað „status quo“ þá hefði ég ekki verið ráðinn.“

Meðal þess sem hefur ergt viðskiptavini Póstsins er langur afgreiðslutími á sendingum erlendis frá svo og öll þau gjöld sem smyrjast á slíkar sendingar. Hér á landi sæta allar sendingar tollmeðferð óháð verðmæti innihaldsins sem tefur að þær komist til skila. Víða erlendis er settur lágmarksþröskuldur á verðmæti sendinga sem sæta tollmeðferð.

„Tollstjóri ákvað í fyrra að öll rúmfreku bréfin færu í tollameðferð sem þýðir að þau stoppa lengur hér í húsi. Núna er allt kerfið handvirkt og um 80% af öllum handtökum þeim tengd. Það yrði gríðarleg hagræðing að koma þessu í stafrænt kerfi og koma sendingunum fyrr til bréfbera,“ segir Birgir. Þá er að því stefnt að reyna að færa flokkun að öllu leyti upp í póstmiðstöðina að Stórhöfða sem á móti myndi losa aðrar fasteignir. Það verði þó ekki einu aðgerðirnar sem gripið verði til.

„Til að gæta allrar sanngirni þá hefur víða verið hagrætt, pósthúsum lokað og afgreiðslutími styttur. En ég hef sagt frá fyrsta degi að það verði uppsagnir, þær verða stórar og þær verða sársaukafullar. Fjöldi starfsfólks er ekki rót vandans en það verður að fara með léttari yfirbyggingu í næsta ár,“ segir Birgir.

Ekki bensín á einhvern áfangastað

Í fyrra fékk ÍSP 500 milljóna króna lán frá ríkinu til að bregðast við lausafjárþurrð. Lánið mun ekki verða greitt til baka og er stefnt að því að því verði breytt í hlutafé. Þá er fyrirhugað að bæta milljarði til viðbótar við hlutafé þess. Spurður um það hvort þeir fjármunir muni duga eða hvort meira þurfi til segir Birgir að það eigi eftir að koma í ljós.

„Við erum ekki á leið í neinar aðgerðir sem kalla á frekari fjárfestingar heldur miklu frekar að nota núverandi fjármagn með breyttum áherslum. Ef maður þarf að leita á náðir eiganda eða banka eftir frekara fé þá er betra að hafa eitthvert plan, einhverja stefnu, í stað þess að fólk upplifi beiðnina eins og það sé að henda peningum í botnlausa hít,“ segir Birgir. „Ég vil ekki tengja nafn mitt og orðspor við að biðja um meira bensín á tankinn til að halda áfram ferðalagi sem enginn veit hvert liggur.“ 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Íslandspóstur