*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 21. mars 2013 08:15

Ætlar í skaðabótamál við FME

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga segist hafa orðið fyrir ærumissi og fjártjóni vegna brottreksturs úr starfi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóð verkfræðinga, undirbýr skaðabótamál á hendur Fjármálaeftirlitinu (FME) vegna brottvikningar úr starfi fyrir þremur árum. Lögmaður Ingólfs er Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME. 

Morgunblaðið greinir ítarlega frá málinu í dag. 

Þar segir að forsaga málsins sé sú að Ingólfur hætti hjá Landsbankanum árið 2009 eftir 20 ára starf þar og hóf störf sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga haustið 2010. FME ákvað hins vegar að víkja Ingólfi úr starfi haustið 2010. Hann taldi ákvörðunina ólögmæta. Hún var síðan felld úr gildi með fullnaðardómi Héraðsdóms Reykjavíkur í janúar 2012. Hæstiréttur hafnaði beiðni FME um áfrýjunarleyfi.

Í apríl og maí árið 2011 fjallaði svo FME um mál Ingólfs á vefsíðu sinni. Hann telur umfjöllunina hafa vegið að æru sinni. Í kjölfar kvörtunar Ingólfs gerði umboðsmaður Alþingis gert alvarlegar athugasemdir við umfjöllun FME.

Ingólfur segir i samtali við Morgunblaðið að umfjöllun FME hafi verið ólögmæt, meiðandi fyrir mannorð hans og skaðað atvinnumöguleika hans. Með henni hafi FME brotið gegn jafnræðisreglu, þagnarskyldu, góðum stjórnsýsluháttum og eigin verklagsreglum, auk þess sem umboðsmaður geri alvarlegar athugasemdir við efni gegnsæisstefnu FME. Hann kveðst jafnframt hafa orðið fyrir verulegu fjártjóni og miska vegna ólögmætra aðgerða FME. Með skaðabótamáli gegn FME vill hann endurheimta mannorð sitt.