Már Guðmundsson seðlabankastjóri er búinn að ákveða hvort hann ætlar að sækja um starf seðlabankastjóra á ný eða ekki. Hvort hann gerir liggur hins vegar ekki fyrir.

Már var spurður að því á vaxtaákvörðunarfundi í gær hvað hann ætli að gera og upplýsti Már að hann ætli að greina frá ákvörðun sinni á sunnudag, hugsanlega í spjallþættinum Eyjan á Stöð 2.

Már var skipaður seðlabankastjóri sumarið 2009 til fimm ára og rennur skipunartími hans út í ágúst á þessu ári. Staða seðlabankastjóra var auglýst í byrjun mánaðar og er hægt að sækja um stöðuna til 27. júní. Verði Már endurráðinn þá mun hann sitja til sumarloka árið 2019.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði að unnið væri að endurskoðun á lögum um Seðlabankann, yfirstjórn hans og annað samhliða ráðningu á nýjum seðlabankastjóra.