Jón Ásgeir Jóhannesson segir dóm Hæstaréttar í Baugsmálinu í gær áfellisdóm yfir ákæruvaldinu. Það hafi aldrei lagt eins mikið undir í neinu máli og aldrei borið eins lítið úr býtum. Málið hefur að hans mati verið rekið áfram af tilfinningalegri heift til einstaklinga og fyrirtækja í rúman áratug. Þótt ákveðinn punktur hafi verið settur aftan við málareksturinn hér á landi þá er ekki sagan á enda; Jón Ásgeir ætlar að reka það áfram fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu í Strassborg. Hann bindur vonir við að þar verði réttlætinu fullnægt.

Meiri háttar brot á skattalögum

Hæstiréttur dæmdi Jón Ásgeir í gær í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 62 milljóna króna sektar í skattahluta Baugsmálsins. Tryggvi Jónsson var dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 32 milljóna króna sektar og Kristín Jóhannesdóttir var dæmd í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í dómi Héraðsdóms var ákvörðun refsingar frestað.

Jón var dæmdur fyrir fimm brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið fjármagnstekjur, fyrir að vantelja tekjur af nýtingu kaupréttar, tekjur í formi launauppbótar, söluhagnað af hlutabréfum og tekjur af hlutareign. Hann var sakfelldur fyrir að hafa vantalið tekjur upp á 172 milljónir króna og greiða ekki 25,3 milljónir króna. Brotið á skattalögum telst meiriháttar.

Vill reka málið fyrir Mannréttindadómstóli

Jón sendi frá sér yfirlýsingu vegna dómsins í gær. Í henni sagði orðrétt:

„Ég get ekki annað en fagnað í dag þegar Baugsmálinu líkur loks eftir 11 ára málaferli. Það er í sjálfu sér ákveðinn sigur fyrir okkur.  Stórglæpurinn fannst ekki og enginn fer í fangelsi.  Þessi sneypuför ákæruvaldsins hefur kostað samfélagið hundruð milljóna sem það fær aldrei til baka [...] Í rúman áratug hefur ákæruvaldið haldið því fram að hér væri slíkur stórglæpur á ferð að 6 ára fangelsi væri í raun of lítill dómur. Útkoman er áfellisdómur yfir ákæruvaldinu og lagalegri þekkingu þeirra einstaklinga sem hafa rekið málið.  Ákæruvaldið hefur aldrei lagt eins mikið undir í neinu máli og í Baugsmálinu og aldrei  borið eins lítið úr bítum. Þessu máli er þó ekki alveg lokið því ég mun áfram reka mál mitt fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og vona að þar muni réttlætinu verða fullnægt.“