„Þetta leið mjög hratt þótt ótrúlegt megi virðast,“ segir Freyr Gígja Gunnarsson fréttamaður á RÚV en hann kynnti Óskarsverðlaunin í gærnótt í fimm tíma útsendingu.

„Ég var líka svo heppinn að hafa gott fólk með mér, frábæran tæknimann, Valgeir Ísleifsson og síðan var hún Hera Ólafsdóttir mér til halds og trausts. Þetta var líka óvenjuskemmtileg hátíð og kynnirinn stóð sig með stakri prýði en ég held að opnunaratriðið hljóti að fara í sögubækurnar.“

Datt í beinni útsendingu

Freyr Gígja segist hafa fylgst spenntur með aðdraganda hátíðarinnar og undirbúið sig vel: „Mér fannst einna skemmtilegast hvað var mikil spenna í kringum hátíðina og stemmning.“ Hann segir hápunktinn hafa þó verið þegar Jennifer Lawrence datt á leið upp á svið til að taka við verðlaunum fyrir bestu leikkonuna í aðalhlutverki: „Mér fannst það aðallega fyndið og skemmtilegt, ætlar þetta fólk samt aldrei að læra að vera í styttri kjólum?“

Og þá að aðalatriðinu, kjólunum: „Mér fannst rauði dregillinn erfiðastur. Aðallega því þar segir fólk ekki neitt af viti og talar bara um einhverja kjóla. Og það er mjög erfitt fyrir mann eins og mig að tala um hvort þessi eða hinn kjóllinn sé vel heppnaður eða illa heppnaður. Ég gerði þó heiðarlega tilraun til að gera þessu öllu skil.“

Hér má sjá Jennifer Lawrence misstíga sig í tröppunum á leið sinni upp á sviðið á Óskarsverðlaunaafhendingunni í nótt.