Davíð Helgason stofnaði fyrirtækið Unity Technologies árið 2003 ásamt tveimur öðrum, Dana og Þjóðvera. Í dag stýrir Davíð 240 manna fyrirtæki frá San Francisco í Bandaríkjunum með starfsemi í 15 löndum. Fyrirtækið framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, smáa sem stóra, og er tæknin sú vinsælasta hjá þeim sem býr til leiki fyrir snjallsíma. Á síðustu fimm árum hefur velta Unity að jafnaði tvöfaldast á ári hverju.

„Allt frá því að ég var krakki hef ég forritað. Einhvern tíma fékk ég þá hugmynd að ég vildi ekki vinna fyrir aðra heldur reka eigið fyrirtæki. Ég hóf að stofna hitt og þetta sem ekkert sérstakt varð úr. Eitt af um fjórum fyrirtækjum náði veltu en endaði þannig að ég var að vinna fyrir aðra sem ég hafði ekki áhuga á,“ segir Davíð um árin áður en Unity varð til árið 2003.

„Vinur minn fiktaði í kjallaranum heima hjá sér við að búa til tölvuleik og fékk mig með. Við vorum báðir forritarar en höfðum metnað fyrir því að gera eitthvað meira, eitthvað stærra og flóknara. Við hugsuðum um hvernig við gætum búið til tölvuleiki sem myndu breyta heiminum. Það fyrsta sem við gerðum var að búa til verkfæri (e. game engine). Félagi minn hafði verið í samskiptum við þýskan forritara á netinu og þeir voru þegar að vinna saman þegar ég kem að. Við hittumst fyrst þrír saman í janúar 2003, fyrir einmitt tíu árum.“

Viðtal við Davíð má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.