Áform um að reisa fjölda spilavíta á Spáni, sem áttu að heita Eurovegas, eru runnin út í sandinn. Ástæðan er ágreiningur þeirra sem ætluðu að reisa spilavítið við spænsk yfirvöld.

Það var Las Vegas Sands sem ætlaði að fjárfesta í spilavítunum fyrir 30 milljarða bandaríkjadali. Byggja átti sex spilavíti, tólf hótel og fjölmargar verslanir. Fjárfestingin hefði numið 3500 milljörðum íslenskra króna.

Ráðgert var að þarna yrðu til 250 þúsund störf. Spánverjar voru spenntir fyrir verkefninu enda er 27% atvinnuleysi í landinu. Spænsk yfirvöld voru hins vegar ekki til í að fallast á ýmiss skilyrði sem fjárfestarnir settu.

Las Vegas Sands vildi til dæmis að ríkisstjórnin tryggði þá gagnvart breytingum á löggjöfinni sem myndu draga úr hagnaði af rekstrinum. Þá vildi Las Vegas Sands líka lægri skatta á fjárhættuspil. Einnig vildi Las Vegas Sands undanþágu reglum um reykingar.

BBC greindi frá.